Saturday, October 11, 2014

Bollukaka með sesamfræi

Uppskriftin af brauðinu er úr bókinni: Við matreiðum, bls 246.
Mjög gott brauð sem lítur mjög fallega út og er einstaklega bragðgott líka.




Þú þarft:

9 dl hveiti (um 450 g) eða hveiti og aðrar korntegundir
3 msk hveitiklíð
5 tsk þurrger
1 tsk salt
3 tsk púðursykur eða sykur
1 dl mjólk
2 dl heitt vatn
2 egg
5 msk matarolía

Ofnhiti: 200°C






Setjið 6 dl af hveitinu, hveitiklíðið, þurrgerið,
saltið og sykurinn í skál.
Öllum þurrefnunum blandað mjög vel saman.

Þeytið eggin lauslega saman.
Takið eina msk fá til að pensla bollurnar eftir lyftingu.
Blandið heitu vatni og mjólk saman. Vökvinn á að vera
ylvolgur (um 40°C).
Bætið eggjunum og olíunni út í mjólkina og vatnið.
Hellið vökvanum saman við mjölblönduna.
Hrærið öllu vel saman.
Stráið dálitlu af hveitinu yfir deigið.
Leggið þurrt stykki yfir skálina.
Látið deigið lyfta sér við yl í um 10 mín.
Vel hefað deigið og glútenþræðirnir sjást vel.
Hnoðið deigið með því sem eftir er af mjölinu (um 3 dl).
Deigið á að vera lint en mótanlegt.
Hnoðið deigið í lengjur. 
Skiptið í meðalstóra bita.
Mótið bollur og raðið þeim í smurt mót
eða á plötu með bökunarpappír.
Best er að byrja frá miðju með eina bollu og raða
síðan í kring með dálitlu millibili.
Bollurnar renna aðeins saman við lyftinguna.
Einnig má móta stakar bollur og baka þær með kökunni.
Stillið ofninn á 200°C.
Látið bollurnar lyfta sér við yl. Leggið stykki yfir bollurnar
meðan þær eru að lyfta sér, í um 10 mín.
Bollurnar orðnar vel hefaðar og kakan orðin ein heild.
Smyrjið bollurnar með eggi sem tekið var frá.
Stráið sesamfræi yfir.
Bakið við 200°C hita í miðjum ofni í um 15 mín.
Gott er að leggja stykki yfir, þá verður kakan mýkri.
Bollurnar losna auðveldlega hver frá annarri.
Verði mér að góðu.

1 comment:

  1. Þetta brauð var ekki eins gott og það lítur út fyrir að vera. Ég varð satt að segja fyrir nokkrum vonbrigðum með það. Það gekk vel að hnoða það og hefa það.
    Það stendur í heitinu á uppskriftinni að það eigi að verða um 30 bollur í bollukökunni og það sé best að byrja frá miðju með eina bollu og raða svo í kringum hana. Þar með eru leiðbeiningarnar upptaldar. Ég sá reyndar ekki að það ættu að vera um 30 bollur, svo ég gerði þetta bara pínulítið eftir mínu höfði og fékk 17 bollur í minini bolluköku. Þar sem ég hef aldrei svo mikið sem heyrt minnst á, hvað þá séð bolluköku þá varð þetta útkoman eins og sjá má á myndunum.
    Brauðið leit mjög fallega út og bragðaðist alveg ágætlega nýtt, en var alls ekki eins gott daginn eftir.
    Ég veit ekki hvort ég eigi eftir að baka svona brauð einhverntíman í framtíðinni.

    ReplyDelete