Tuesday, October 21, 2014

Sólkjarnabrauð

Uppskriftin af brauðinu er úr bókinni:  Af bestu lyst bls. 30 - Sólkjarnabrauð.
Sólkjarnabrauðið er einstaklega fallegt fyrir augað og er einnig sérlega gott á bragðið og er tilvalið að bera fram með súpu.


Þú þarft:

25 g pressuger
2 1/2 dl volgt vatn
1/2 tsk salt
1 msk sykur
3/4 dl léttristuð sesamfræ
3/4 dl léttristuð sólblómafræ
1 1/2 dl heilhveiti
4 dl hveiti
2-3 msk matarolía
egg til penslunar

Skraut: sólblómafræ

Ofnhiti 200°C






Myljið gerið út í vatnið og látið standa í 5-10 mínútur.
Ristið sesamfræin.
Ristið sólblómafræin.

Blandið saman salti, sykri, fræjum, heilhveiti og
mestum hluta hveitisins.
Hellið olíu og gerblöndunni í þurrefnin og blandið vel saman.
Breiðið yfir deigið og látið það hefast á hlýjum stað í um klst.
Hnoðið deigið og bætið við restinni af hveitinu eftir þörfum.
Hnoðið deigið þar til það klístrast hvorki við hönd né borð.
Skiptið deiginu í þrjá jafn stóra hluta.

Mótið eina stóra bollu úr einum hlutanum og setjið hana
á bökunarpappír á miðja bökunarplötu.
Skiptið hinum bollunum í litlar jafnstórar bollur.
Raðið litlu bollunum í kringum stóru bolluna.
Penslið með eggi.
Sáldrið sólblómafræjum yfir bollurnar.
Látið deigið hefast aftur í um hálftíma.
Bakið í miðjum ofni við 200°C í 30-35 mínútur...... 
..... eða þar til brauðið hefur fengið fallega brúnan lit.
Látið kólna.
Berið fram.
Verði mér að góðu.

1 comment:

  1. Þetta var skemmtilegt brauð að baka.
    Það gekk vel að hnoða það saman og lék það í höndunum á mér þegar ég skipti því niður til að mynda blómið.
    Ég penslaði óvart með egginu áður en ég lét deigið hefa sig í síðasta skiptið.
    Einnig fannst mér það full mikið hefað og hefði frekar kosið að sjá meira loft í því. Ég veit ekki hvort það var af því að ég lét það hefast yfir heitu vatnsbaði og því hefur það hefast meira en ef ég hefði bara látið það hefast á borðinu við stofuhita.
    Það hefði mátt taka það fram í upphaflegu uppskriftinni að það þarf að rista fræin í sitt hvoru lagi þar sem þau ristast alls ekki á sama tíma. Ég bætti því við í mínum leiðbeiningum.
    Brauðið var einstaklega bragðgott og á ég örugglega eftir að baka það oftar.

    ReplyDelete